ESB fyrirvara Ásmundar!

viso4.jpg

Þann 19. ágúst birtist grein í Fréttablaðinu eftir Ásmund Einar Daðason alþingismann VG og formann Heimssýnar, hreyfingar andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þarna endurskrifar hann grein Ögmundar Jónassonar sem birtist viku fyrr í Fréttablaðinu og spyr í lokin hvort fyrirvarar ESB haldi eða ekki þrátt fyrir að hafa fullyrt að svo sé ekki í fyrirsögn greinar. Þó spurningu hans sé beint til annars aðila fann ég mig knúna til að svara honum.

Þegar aðildarviðræður fara í gang á milli umsóknarríkis og ESB hafa báðir aðilar ákveðin samningsmarkmið sem að hálfu umsóknarríkis snúast vanalega um að njóta ákveðins sveigjanleika við aðlögun að lögum og stefnu sambandsins, sérstaklega á þeim sviðum þar sem miklir þjóðarhagsmunir eru í húfi. Þessi sveigjanleiki sem samið er um birtist meðal annars í aðlögunarfrestum, tímabundnum undanþágum og varanlegum sérlausnum, en heppilegra er að tala um sérlausnir en fyrirvara eins og Ásmundur Einar gerir.

Ótal mörg dæmi eru til um slíkt. Til dæmis fengu Pólverjar aðlögunarfrest á gildistöku réttar borgara og lögaðila frá öðrum ríkjum ESB til kaupa á fasteignum og jarðnæði í Póllandi til ársins 2016. Þá gerðu Búlgarar kröfu um tímabundna undanþágu frá reglum sambandsins um hámarkstjöruinnihald í sígarettum og frá álagningu fulls virðisaukaskatts á sígarettur og fengu. En hvað með varanlegu sérlausnirnar (fyrirvara) hans Ásmundar? Standa þær ekki?

Svarið er einfaldlega jú, varanlegar sérlausnir milli umsóknarríkja og ESB halda (í raun verða sérlausnirnar að reglum sem ný og fyrrum aðildarríki gangast undir) Í aðildarviðræðum sínum sömdu Lettar um varanleg sérákvæði um veiðar í Rigaflóa. Þannig óskuðu Lettar eftir sérreglum um veiðar á vissum hafsvæðum og í samræmi við þá ósk voru samdar sérreglur sem takmarka stærð og vélarafl skipa sem heimilt er að veiða og tryggja að samanlögð veiðigeta skipa sem fá að veiða verði ei meiri en sú sem þau höfðu sem veiddu þar fyrir inngöngu Lettlands í ESB.

Malta fékk yfir sjötíu aðlögunarfresti og undanþágur frá reglum Evrópusambandsins í samningaviðræðum sínum, til dæmis um frjálst flæði vinnuafls til landsins og um 25 sjómílna efnahagslögsögu fyrir innlenda sjómenn, og eru sumar þeirra varanlegar. Um þessa 25 mílna lögsögu segir í umsögn framkvæmdastjórnar ESB að stofna skuli til slíks svæðis innan ramma reglna sambandsins og að reglurnar um það skuli endurspegla raunverulegar verndarþarfir fiskistofna. Aðalatriðin snúa þó að því að fiskveiðar innan lögsögu Möltu skuli takmarkaðar við minniháttar strandveiðar, sem þýðir að veiðarnar séu aðeins stundaðar á bátum innan við 12 metra að lengd. Það myndi ekki svara kostnaði fyrir erlendar útgerðir að senda svo litla báta til veiða við Möltu og því þýðir þessi regla í raun að einungis bátar heimamanna megi veiða í lögsögunni.

Að lokum má nefna styrkjakerfið í landbúnaðarstefnu ESB en almennt gildir að aðildarríki megi ekki styðja landbúnað í sínu landi með sértækum aðgerðum. Þar sem Finnar og Svíar höfðu mikilla hagsmuna að gæta í landbúnaði fengu þeir í aðildarviðræðum sínum skilgreindan sérstakan heimskautalandbúnað sem lýtur öðrum lögmálum en hin hefðbundna landbúnaðarstefna sambandsins. Þannig kom til sú regla að hægt sé að styrkja aukalega landbúnað norðan 62. breiddargráðu. Í dag eru það einungis Finnar og Svíar sem falla undir þessa skilgreiningu en Ísland og Noregur myndu að sama skapi njóta þessarar sérlausnar.

Sérreglur sem þessar eru dæmi um lausnir sem tryggja sérhagsmuni nýrra aðildarríkja án þess að þær lausnir kveði formlega á um undanþágu eða frávik frá reglum ESB. Í raun eru nýjar reglur samdar í kringum óskir aðildarríkjanna sem síðan gilda fyrir önnur ríki. Hvaða sérlausnir það síðan eru sem við munum semja um er annað mál, en eitt er víst að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvort þær haldi eður ei og því legg ég til að Ásmundur Einar og aðrir sameinist í því að semja sem best um okkar þjóðarhagsmuni í stað þess að eyða púðri í að afvegaleiða umræðuna um aðild.

Grein birtist í Frbl. þann 24. ágúst 2010. Höfundur er Sema Erla, formaður Ungra evrópusinna.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband