Færsluflokkur: Evrópumál
ESB fyrirvara Ásmundar!
25.8.2010 | 23:14
Þann 19. ágúst birtist grein í Fréttablaðinu eftir Ásmund Einar Daðason alþingismann VG og formann Heimssýnar, hreyfingar andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Þarna endurskrifar hann grein Ögmundar Jónassonar sem birtist viku fyrr í Fréttablaðinu og spyr í lokin hvort fyrirvarar ESB haldi eða ekki þrátt fyrir að hafa fullyrt að svo sé ekki í fyrirsögn greinar. Þó spurningu hans sé beint til annars aðila fann ég mig knúna til að svara honum.
Þegar aðildarviðræður fara í gang á milli umsóknarríkis og ESB hafa báðir aðilar ákveðin samningsmarkmið sem að hálfu umsóknarríkis snúast vanalega um að njóta ákveðins sveigjanleika við aðlögun að lögum og stefnu sambandsins, sérstaklega á þeim sviðum þar sem miklir þjóðarhagsmunir eru í húfi. Þessi sveigjanleiki sem samið er um birtist meðal annars í aðlögunarfrestum, tímabundnum undanþágum og varanlegum sérlausnum, en heppilegra er að tala um sérlausnir en fyrirvara eins og Ásmundur Einar gerir.
Ótal mörg dæmi eru til um slíkt. Til dæmis fengu Pólverjar aðlögunarfrest á gildistöku réttar borgara og lögaðila frá öðrum ríkjum ESB til kaupa á fasteignum og jarðnæði í Póllandi til ársins 2016. Þá gerðu Búlgarar kröfu um tímabundna undanþágu frá reglum sambandsins um hámarkstjöruinnihald í sígarettum og frá álagningu fulls virðisaukaskatts á sígarettur og fengu. En hvað með varanlegu sérlausnirnar (fyrirvara) hans Ásmundar? Standa þær ekki?
Svarið er einfaldlega jú, varanlegar sérlausnir milli umsóknarríkja og ESB halda (í raun verða sérlausnirnar að reglum sem ný og fyrrum aðildarríki gangast undir) Í aðildarviðræðum sínum sömdu Lettar um varanleg sérákvæði um veiðar í Rigaflóa. Þannig óskuðu Lettar eftir sérreglum um veiðar á vissum hafsvæðum og í samræmi við þá ósk voru samdar sérreglur sem takmarka stærð og vélarafl skipa sem heimilt er að veiða og tryggja að samanlögð veiðigeta skipa sem fá að veiða verði ei meiri en sú sem þau höfðu sem veiddu þar fyrir inngöngu Lettlands í ESB.
Malta fékk yfir sjötíu aðlögunarfresti og undanþágur frá reglum Evrópusambandsins í samningaviðræðum sínum, til dæmis um frjálst flæði vinnuafls til landsins og um 25 sjómílna efnahagslögsögu fyrir innlenda sjómenn, og eru sumar þeirra varanlegar. Um þessa 25 mílna lögsögu segir í umsögn framkvæmdastjórnar ESB að stofna skuli til slíks svæðis innan ramma reglna sambandsins og að reglurnar um það skuli endurspegla raunverulegar verndarþarfir fiskistofna. Aðalatriðin snúa þó að því að fiskveiðar innan lögsögu Möltu skuli takmarkaðar við minniháttar strandveiðar, sem þýðir að veiðarnar séu aðeins stundaðar á bátum innan við 12 metra að lengd. Það myndi ekki svara kostnaði fyrir erlendar útgerðir að senda svo litla báta til veiða við Möltu og því þýðir þessi regla í raun að einungis bátar heimamanna megi veiða í lögsögunni.
Að lokum má nefna styrkjakerfið í landbúnaðarstefnu ESB en almennt gildir að aðildarríki megi ekki styðja landbúnað í sínu landi með sértækum aðgerðum. Þar sem Finnar og Svíar höfðu mikilla hagsmuna að gæta í landbúnaði fengu þeir í aðildarviðræðum sínum skilgreindan sérstakan heimskautalandbúnað sem lýtur öðrum lögmálum en hin hefðbundna landbúnaðarstefna sambandsins. Þannig kom til sú regla að hægt sé að styrkja aukalega landbúnað norðan 62. breiddargráðu. Í dag eru það einungis Finnar og Svíar sem falla undir þessa skilgreiningu en Ísland og Noregur myndu að sama skapi njóta þessarar sérlausnar.
Sérreglur sem þessar eru dæmi um lausnir sem tryggja sérhagsmuni nýrra aðildarríkja án þess að þær lausnir kveði formlega á um undanþágu eða frávik frá reglum ESB. Í raun eru nýjar reglur samdar í kringum óskir aðildarríkjanna sem síðan gilda fyrir önnur ríki. Hvaða sérlausnir það síðan eru sem við munum semja um er annað mál, en eitt er víst að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því hvort þær haldi eður ei og því legg ég til að Ásmundur Einar og aðrir sameinist í því að semja sem best um okkar þjóðarhagsmuni í stað þess að eyða púðri í að afvegaleiða umræðuna um aðild.
Grein birtist í Frbl. þann 24. ágúst 2010. Höfundur er Sema Erla, formaður Ungra evrópusinna.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Opið bréf til Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB
6.8.2010 | 15:11
Kæra Ísafold,
Eftir að við lásum bréf ykkar, sem stílað er á hæstvirtan forseta Alþingis og háttvirta Alþingismenn, þar sem þið hvetjið þingmenn til þess að samþykkja þingsályktunartillögu þess efnis að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka og gefið fyrir því tvær ástæður hvers vegna þið styðjið slíka tillögu, langar okkur að benda ykkur á nokkra hluti.
Þið segið í bréfinu að þær forsendur sem leiddu til aðildarumsóknar Íslands að ESB, að Evrópusambandsaðild og upptaka evrunnar myndu flýta fyrir efnahagsbata hins íslenska hagkerfis, séu brostnar. Það verður að teljast einstakt í sögunni að tólf frjáls og fullvalda ríki kasti af sjálfsdáðum eigin gjaldmiðli og taki í staðinn upp sameiginlega mynt, mynt sem í dag er orðinn einn útbreiddasti gjaldmiðill í heimi og hátt í þrjátíu ríki nota. Gengi evrunnar hefur sveiflast töluvert gagnvart Bandaríkjadal og á fyrstu árum féll til dæmis gengi hennar verulega en styrktist svo að nýju. Það stöðvaði hins vegar ekki ný ríki í því að taka upp Evruna sem og íslensk fyrirtæki, til dæmis útgerðarfyrirtæki, í að stunda sín viðskipti í Evrum. Það er því fullsnemmt að dæma evruna til dauða.
Þið nefnið landsfund Sjálfstæðisflokksins sem dæmi um óánægju íslensku þjóðarinnar með aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og þá ályktun þeirra um að draga skuli umsóknina til baka án tafar. Til að byrja með er gott að benda á að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki þjóðin. Í öðru lagi fengu þessir sömu Sjálfstæðismenn Daniel nokkurn Hannan, Evrópuþingmann, til þess að flytja hér á landi erindi þar sem þeir áttu eflaust von á því að hann tæki undir ályktun þeirra. Það gerði hann hins vegar ekki heldur sagði hann að við ættum að drífa umsóknarferlið af og leyfa síðan þjóðinni að kjósa um samninginn. Sjálfstæðisflokkurinn er því eflaust ekki jafn hrifinn af erlendum fræðimönnum og Ísafold. Næst var það formaður Landsambands íslenskra útvegsmanna sem sagði að ekki ætti að draga umsóknina til baka heldur reyna að ná eins góðum samningi og mögulegt er. Það verður því að segja sem svo að þeim fer fækkandi sem vilja standa í vegi fyrir því beina lýðræði sem felst í því að leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Við viljum síðan benda Ísafold á að frá bæjardyrum Evrópusambandsins séð snúast aðildarviðræður í raun aðeins um það hvernig hið væntanlega nýja aðildarríki innleiðir alla gildandi sáttmála, löggjöf og stefnumið sambandsins. Að sama skapi mæta báðir aðilar til borðs með sín samningsmarkmið sem snúa fyrst og fremst að því fyrir okkur að fá að njóta ákveðins sveigjanleika við aðlögun að lögum og stefnum ESB, einkum á þeim sviðum þar sem mestir þjóðarhagsmunir teljast vera í húfi. Það er auðvitað ómögulegt að segja til um hvað kemur úr aðildarviðræðum fyrr en samningurinn liggur fyrir en ljóst er að flest umsóknarríki ganga í gegnum róttæk umskipti samhliða viðræðum en ólíklegt þykir að breytingarnar hér verði eins stórfenglegar eins og til dæmis þegar stækkunin til austurs stóð yfir.
Að lokum viljum við benda Ísafold á að Evrópusambandið hefur ekki sameiginleg auðlindayfirráð og þær reglur sem gilda um stjórn orkuauðlinda hafa þegar verið teknar inn í íslensk lög vegna EES-sáttmálans. Það kemur fram í 295. grein stofnsáttmála sambandsins að forræði yfir auðlindum sé hjá aðildarríkjum.
Í ljósi þessa hvetjum við ykkur til þess að leyfa Íslendingum að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið og gefa þannig þjóðinni tækifæri til þess að kjósa um framtíð Íslands, í þjóðaratkvæðagreiðslu, um samninginn sem kemur út úr viðræðunum við Evrópusambandið.
Virðingarfyllst,
Stjórn Ungra evrópusinna.
www.ungirevropusinnar.is
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dóri DNA og ESB.
4.8.2010 | 22:45
Dóri DNA segir okkur sína skoðun á aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Bergur Ebbi og ESB.
4.8.2010 | 22:27
Bergur Ebbi segir okkur hvers vegna hann er sammála því að betra sé fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grein: ESB: hernaðar- eða mannúðarsamband?
4.8.2010 | 22:07
"Andstæðingar Evrópusambandsins og aðildar Íslands að sambandinu hafa nú í nokkurn tíma sagt óhugnanlegar sögur af því sem þeir vilja meina að sé hernaðarbandalag sem mun neyða Íslendinga til þess að senda afkvæmi sín í hinn óhugnanlega Evrópusambandsher ef Ísland verður aðildarríki Evrópusambandsins. Nú fyrir stuttu fengu draugarnir á bak við sögurnar Samtök ungra bænda með sér í lið og fengu þá til þess að birta auglýsingu í fjölmiðlum landsins sem varaði landsmenn við því að með aðild að Evrópusambandinu fylgir herskylda fyrir okkur Íslendinga gagnvart hinum væntanlega Evrópusambandsher. Þar sem þessar sögur andstæðinga Evrópusambandsins eru álíka sannar og sú að Al-Kaída sérhæfi sig í blómaskreytingum ákvað ég að deila með lesendum nokkrum staðreyndum um utanríkis-, öryggis-, og varnarmál Evrópusambandsins."
Greinina má lesa í heild sinni á heimasíðu Ungra evrópusinna: http://www.ungirevropusinnar.is/2010/07/esb-hernaðar-eða-mannuðarsamband/
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ungir evrópusinnar
4.8.2010 | 22:03
Ungir evrópusinnar er þverpólitísk ungliðahreyfing sem telur að hagsmunum Íslands geti verið best borgið með aðild að Evrópusambandinu, og að nauðsynlegt sé fyrir Ísland að taka virkan þátt í samstarfi evrópuþjóða á efnahagslegum, menningarlegum, félagslegum og stjórnmálalegum grundvelli.
Ungir evrópusinnar vilja stuðla að opinni og upplýsandi umræðu um samstarf Evrópuríkja og dreifa upplýsingum og þekkingu um Evrópusambandið. Ungir evrópusinnar vinna því með aðild Íslands að ESB sem helsta markmið. Þá er hreyfingin opin öllum ungliðum frá 16 ára afmælisdegi þeirra þar til þeir verða 36 ára, fari þeir að lögum hreyfingarinnar.
Hlutverk Ungra evrópusinna er að stuðla að opinni og upplýsandi umræðu um Evrópusambandið, að dreifa upplýsingum og þekkingu um sambandið og að koma hugsjónum og hugmyndafræði sambandsins á framfæri við unga fólkið og leiðrétta rangfærslur um Evrópusambandið. Þá mun hreyfingin reyna að fá alla unga evrópusinna undir sama hatt.
Ungir evrópusinnar reiða sig á frjáls framlög stuðnings- og félagsmanna. Þeim sem hafa áhuga á að styrkja félagið er bent á reikning félagsins:
Reikningsnúmer: 525-26-561209
Kennitala: 561209-0140
Tölvupóstur Ungra evrópusinna: ungirevropusinnar@ungirevropusinnar.is
Hægt er að skrá sig í félagið með því að senda tölvupóst eða með skráningarforminu á heimasíðu félagsins www.ungirevropusinnar.is